Mykie_ | Halloween Inspiration

Ef ykkur leiðist á þessum sunnudegi eða vantar smá innblástur fyrir upprennandi Halloween þá mæli ég fyrst og fremst með þessari píu:

Mykie_

Eða Glam&Gore á youtube.

Þessi gella er að öllu gríni slepptu minn allra uppáhalds youtube-ari þessa stundina. Ég fann channelið hennar um daginn og ég horfði á öll vídjóin í röð og núna get ég aldrei beðið eftir næsta vídjói.

Hún er með svo ótrúlega mikla náðargáfu og áhuga á því sem hún er að gera að það er næstum smitandi. Ég fer alltaf í hardcore brainstorming session eftir vídjóin hennar. Fyrir utan þetta allt, hæfileikana, hugmyndirnar og áhugann sem hún hefur á þessu- þá er hún ótrúlega skemmtileg og vídjóin hennar eru eintóm gleði frá upphafi til enda. Það er hreint út sagt unaður að fylgjast með henni!


Ég mæli endregið með að þið kíkið á hana.
Ef þið verðið jafn ástfangin af henni og ég (eða hafið þegar verið að fylgjast með henni) megið endilega kommenta. Er ég sú eina sem er sjúk í hana?




Af afmælum og týndum konum

Seinasta vikan hefur verið upp og niður.
Það var nefnilega þannig að ég átti afmæli, ég bauð góðum vinum í mat og spil og kíkti svo aðeins út að dansa. Það var yndælt og gott. En á sama tíma hefur síðasta vikan verið svolítið erfið. 


Ég er nefnilega ein af "týndu konunum" sem auglýst hefur verið eftir í krabbameinsleit í október. Einhverra hluta vegna hefur þessi einfaldi hlutur, að fara í krabbameinsstroku, vaxið mér stanslaust í augum frá því ég varð tvítug fyrir þremur árum. Hvert einasta haust fæ ég hnútinn í magann og skammast mín í hvert skipti sem ég er spurð hvort ég sé ekki búin að fara í skoðun. Ég hef markviss skrollað framhjá allri umfjöllun um leghálskrabbamein og krabbameinsskoðanir seinustu þrjú árin. Hvort sem það eru auglýsingar, viðtöl eða annars konar umfjallanir- ef það tengist leghálskrabbameini eða krabbameinsleit þá forðaðist ég það eins og heitan eldinn. Ég varð einfaldlega ofsakvíðin við tilhugsunina. 


Ég er svosem kanski extreme dæmi, en ég hef undanfarin ár verið að berjast við kvíða, sem ég tala nú ekki endilega mikið um en hann getur orðið ansi svæsinn.

Ég get sagt það að nú í október var engin undankomuleið. Loksins (þó ég hafi ekki tekið því fagnandi fyrst) var engin leið að komast hjá auglýsingum og vitundavakningu hvað krabbameinsleitina varðaði. Ég var reglulega minnt á þetta af mörgum kjarnakonum í kringum mig sem vissu af þessari hræðslu minni og hvöttu mig stöðugt áfram. Ég hringdi því og pantaði tíma fyrir viku síðan, ekki síst vegna þess að ég var komin með nóg af að skammast mín. Það er fólk nákomið mér sem á ástvini sem eru að berjast við krabbamein og einnig fólk sem hefur tapað baráttunni. Það minnsta sem ég get gert er allavega að taka frá nokkrar mínútur af lífi mínu til að láta skoða mig. Jafnvel þó að ekki verði allt með felldu og haft verði samband við mann vegna frumubreytinga eða þess háttar, þá gefur maður sér allavega betri möguleika á að koma hlutunum aftur í eðlilegt horf ef maður fer snemma í tékk.


Eftir að ég pantaði tíma tók við vika af ofboðslegri lægð og seinustu tvo til þrjá sólahringa hef ég sofið samtals um 3-5 klukkustundir (ég er semsagt nánast svefnlaus). Ég var orðin mjög rugluð og vansæl af svefnleysi svo ég gat ekki beðið eftir að ljúka þessu af.
Ég er ekkert sjúklega æst í að opinbera það hvað ég hafði miklað þetta fyrir mér og gert mikið mál úr þessu, en ég vona að einhver tengi og skilji að þó að manni finnist (eins og mér) að þetta sé óyfirstíganlegt, að þá er það ekki þannig.

Í dag var dagurinn. Ég mætti galvösk, ósofin og uppblásin af ímynduðu hugrekki upp á leitarstöð og beið skjálfandi í bleiku pilsi eftir því sem ég hafði miklað fyrir mér í þrjú ár. Það var næstum svekkjandi hvað þetta var einfalt. Mig langaði helst að biðja kvensjúkdómalækninn að gera þetta svolítið erfitt og vera með smá vesen bara svona svo mér liði ekki eins og algjörum kjána fyrir að hafa kviðið þessu svona lengi. 



Ég veit ekki hversu oft mig hefur langað að berja höfðinu í vegg þegar ég heyri konur segja "þetta er ekkert mál!". Ég verð að hryggja ykkur með því að þær sögðu satt... allar með tölu.
Þetta var djóklaust svo ótrúlega lítið mál. Ég kveð því hér með þrjú ár af krabbameinsleitarkvíða og hlakka til þess að sofa í nótt.

Ef þú átt eftir að fara af því þú kvíðir leitinni hvet ég þig hér með til að hringja um leið og símalínur opna í fyrramálið. Það er ótrúlegur léttir að klára þetta. Jafnvel þó biðin geti verið erfið.




Halloween förðun+föndur| DIY

Ég er svolítill kvíðapési, nánar um það síðar, en af þessum ástæðum á ég oft erfitt með að sofa á næturnar (eða sofa yfir höfuð). Og þegar ég ligg andvaka uppi í rúmi fæ ég oft góðar hugmyndir hvað varðar förðun og nýjar aðferðir og lúkk til að prófa. Ég einbeiti mér að því að hugsa um það sem ég hef gaman af svo ég fari ekki yfirum og þegar ég er búin að liggja ákveðið lengi án árangurs fer ég venjulega og reyni að dúlla mér eitthvað (venjulega við snyrtiborðið) því það hjálpar engum að liggja einn með kvíðanum sínum í marga klukkutíma í myrkrinu :)

Toppnæs leikrænir tilburðir
Ég er því pínu montin því fyrr í vikunni lá ég og var að hugsa um hvernig ég gæti gert skemmtilega Halloween förðun án þess að eiga nein almennileg verkfæri/efni til þess. Þá mundi ég eftir heitu límbyssunni minni og skreið samstundis fram úr klukkan að verða 04°° um nóttina og byrjaði að leika mér að föndra. Maður getur gert hvernig mynstur og form sem maður vill með því að setja límið á bökunarpappír. Þegar það kólnar er ekkert mál að ná því af pappírnum og þá er maður með krúttlegar skreytingar eða hluti sem maður getur notað í förðun, sérstaklega því límið er aðeins sveigjanlegt eftir að það þornar.

Ég er svona ágætlega ánægð með lúkkið- í draumaheimi hefði ég átt fljótandi latex og gerviblóð til að hafa allt raunverulegra, en miðað við aðstæður kom þetta bara nokkuð vel út. Birtan á eftirfarandi myndum er hörmuleg, en ég hafði ekki mikið vald á náttmykrinu og lýsingin í íbúðinni er ekkert til að hrópa húrra fyrir.

HOW TO:
1. Byrjið á að hita byssuna
2. Setjið svo formin ykkar niður á bökunarpappír og látið kólna áður en þið takið þau af (ég gerði köngulóavef og könguló ásamt nokkrum litlum "möðkum".

3. Ég mattaði köngulóavefinn með hvítum grunni frá NYX og hvítum augnskugga (límið sjálft glansar mjög mikið)
4. Svo málaði ég köngulónna með svörtum gel eyeliner frá Maybellina (ekki að merkið skipti máli) 

5. Ég gerði tilraun til að láta köngulónna líta út fyrir að vera eitraða með nokkrum dropum af neon lakki- veit ekki hvort ég hefði átt að sleppa þessu skrefi og hafa hana bara svarta, það má mála hana hvernig sem er auðvitað.
6. Ég hvíttaði "maðkana" með hvítri andlitsmálningu og setti svo glært laust púður yfir svo það myndihaldast.

7. Ég setti bara venjulega meikið mitt yfir allt andlitið og faldi svo aðra augabrúnina þar sem ég vill hafa köngulóavefinn- þá verður auðveldara að líma hann á og velja stað fyrir hann o.þ.h.
8. Bætti rauðum, fjólubláum og svörtum augnskuggum á aðra hlið andlitsins til að líkja eftir mari. Málaði annað augað venjulega og smurði gerviaugnháralími fyrir neðan það. Ég myndi mæla með svona 5 umferðum af líminu og láta þorna alltaf á milli (þetta mun vera "maðkapoki" á eftir).

9. Ég bætti enn frekar í marið öðru megin (maður gerir þetta bara eftir eigin hentusemi).
10. Svo losaði ég efri hluta augnháralímsins og bjó til nokkurskonar poka undir auganu sem ég fyllti svo með blóðið og möðkum (namm haha). Mæli með alvöru gerviblóði, en ég þurfti að nota bara augnskugga og varaliti, sem var mjög erfitt að þrífa af!

11. Næst gerði ég einskonar köngulóarbit á ennið með rauðum, fjólubláum og svörtum augnskuggum, gerviaugnháralími og bómull. Öllu bara skellt þarna í einhverja klessu og rótað svo í til að láta líta út eins og opið sár. Reyndi líka að teikna svona svartleitar "æðar" út frá sárinu, eins og eitur væri að dreifa sér út frá því. 
12. Næst smellti ég heimatilbúnu köngulónni á sárið með gerviaugnháralími. 

 Síðast bætti köngulóavefnum á hitt augað með augnháralími og bætti svo bara smá svona mari og "drullu" fyrir neðan maðkapokan og í raun á restina af andlitinu, eins og ég hafi skriðið og festst ofan í gömlu skítugum kjallara. Leikrænu tilþrifin eru mjög mikilvæg "for effect" heheee ;) Ég bætti svo límbyssu ormi í nefið á mér, en hefði frekar sleppt honum- hann er ekkert ormalegur. 

Án filters

Og með duckface- náttúrulega krúsjal.

Ef einhver prófar Halloween förðun með svona límbyssuskrauti yrði ég ofur þakklát ef sá hinn sami myndi leyfa mér að sjá- ég er ekkert smá forvitin að sjá fleiri útfærslur á hugmyndinni!
Minni á gjafaleikinn hér fyrir neðan fyrir þá sem eiga eftir að taka þátt :)



Gjafaleikur| 2014

Jæja, þá er loksins komið að því.
Tækifæri fyrir ykkur til að bæta einhverju krúttlegu í safnið ykkar.

Ég vil bara segja takk. Takk allir sem heimsækja bloggið, bæði þeir sem hafa lesið í ríflega þrjú ár en einnig þeir sem eru bara nýkomnir í hópinn. Ég hef rosalega gaman af því að skrifa færslur um allskonar sem er mér hugleikið hverja stund og þó að stundum líði full langt á milli verður svo að vera. Mér þykir það betra en að kreista fram færslur úr tómum og ó-innblásnum heila. Vonandi hafið þið samt gaman af öllu saman.

Gjöfin:




Bland af nokkrum vörum sem ég elska:
Ardell Natural augnhár: Ég held mikið upp á Ardell augnhárin, þessi eru svona náttúrulegri "everyday" augnhár :)
Jarðaberjasápa frá Body Shop: Ég er mjög hrifin af jarðaberjalyktinni frá Body Shop fæ aldrei nóg.
Parsin Hilton Body Spray: Þessi ilmur var uppáhaldið mitt í mörg mörg ár, þar til ég hætti að finna hann á Íslandi- vona að hann falli í kramið :)
EOS: Á mikið af varasölvum frá EOS, engir töfravarasalvar, nokkuð venjulegir bara en þeir eru bara svo ótrúlega sætir og gaman að eiga þá (þessi er ekki í plasti því hann kom í pakka með fjórum í).
Maybelline Age Rewind Hyljari: Þessi hyljari hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér fyrir undirauga svæðið. Ég keypti hann í ljósasta með það í huga að hann yrði notaður sem svona hyljari/highlighter. Vona að hann verði ekki of ljós fyrir þann sem eignast hann.

Aukalega bætti ég svo við til gamans lúxus tester af Dior augnskuggapalettu og Estée Lauder Advanced Night Repair Recovery Complex. Ég verslaði mikið í gegnum "gömlu" vinnuna mína og þá fylgdu oft svona krúttvörur með sem ég nota ekki alltaf (bara því ég á svo mikið af öllu). Hélt kanski að þið hefðuð gaman af að fá þau með.
Að lokum er svo bara handspritt með Pumpkin Cupcake lykt og nokkrir sælgætismolar frá Ameríkunni.

{Skilyrði gjafaleiksins (eins og í öðrum gjafaleikjum sem ég hef haft) eru þau að til að taka þátt í leiknum þarf viðkomandi að setja like á KatrínMaría.com á facebook. En það er ekki nóg að like-a bara síðuna, það er einnig mjög mikilvægt að like-a þessa mynd sem er inni á facebook síðunni svo ég sjái alla sem taka þátt í leiknum}

 Það er víst ekki hægt að skipta um nafn á facebooksíðu sem þegar hefur 200 like eða meira, þannig ég þurfti að búa til nýja like-síðu fyrir nýja nafnið á blogginu ég byrjaði því frá núlli í fyrradag en fékk ótrúlega góðar viðtökur strax og er nú að skríða hægt og rólega í fyrra horf. 

19. október kem ég svo til með að fara yfir like-in á myndinni og nota random.org til að finna sigurvegarann.



Breytingar| Glimmer&Gleði kveður

Ég er næstum með samviskubit yfir nafninu á þessari færslu. Náttúrulega allan tímann gert til þess að stuða. Þó það sé að vísu satt að vissu leyti.

Mér fannst löngu kominn tími á breytingar bæði hvað varðar útlit á blogginu og nafn. Nafninu hefur mig langað að breyta nánast alveg síðan bloggið var skýrt "Glimmer og Gleði". 


Upprunalega hét bloggið "beautyboxið" eða eitthvað slíkt, það var í nokkrar vikur á meðan við vorum tvær að reka það okkur til gamans. Það hélt nafni þar til við áttuðum okkur á að þegar var til íslenskt blogg sem vann undir sama eða svipuðu nafni. Að sjálfsögðu fórum við í nafnabreytingar um leið og við áttuðum okkur á þessu- en að finna nýtt nafn var ekki einfalt. Þar af leiðandi fengum við hjálp frá lesendum og settum upp könnun með nokkrum nöfnum eftir að hafa m.a. beðið um hugmyndir frá lesendum. 

Upprunalegir bloggarar <3
Nafnið sem bar sigur úr býtum var "Glimmer og Gleði" sem mér fannst ótrúlega fyndið í ljósi þess að mér fannst það síst af öllum nöfnunum sem sett voru í könnunina. Þetta voru raunverulega mistök af minni hálfu, að setja nafn sem mér líkaði ekki við í könnun sem snéri að annars frekar mikilvægri ákvörðun fyrir bloggið. En mér fannst það ekkert óendanlega hræðilegt og að sjálfsögðu hefði ég ekki farið að svíkja lesendur eftir að hafa leyft þeim að velja. Þetta er sérlega skoplegt í ljósi þess að þetta var á tíma þar sem bloggið var að taka sín fyrstu skref og það voru kanski svona 30 manns sem tóku þátt í "kosningunum", þar af voru að mig minnir um 8-10 einstaklingar sem völdu nafnið "Glimmer og Gleði". Þetta er auðvitað gríðarlega lítið brot af lesendum og eiginlega fyndið hvað mér fannst mikilvægt að þessar 8 manneskjur fengju það sem þær kusu hahah!


Síðan hafa liðið mánuðir og ár. Nú rek ég bloggið ein og sjálf undir nafni sem ég hef aldrei kunnað sérstaklega vel við. Ég viðurkenni að Glimmer og Gleði hefur öðlast ákveðinn stað í hjarta mér eftir þennan langa tíma- en það hentar bara mun betur þegar maður reynir að koma sjálfum sér á framfæri- að gera það undir eigin nafni. Þannig man fólk eftir þér- en ekki bara blogginu þínu.
Bloggið mitt snýst líka um svo margt fleira en bara glimmer og gleði- en það hefur með tímanum breyst í vettvang fyrir mig til að deila áhugamálum, skoðunum, hugmyndum og spjalla jafnvel þó það snúist ekki alltaf um förðun, snyrtivörur, glimmer eða gleði.

Af þessum ástæðum verður bloggið héðan í frá

KATRINMARIA.COM

Ég veit... mjög töffaralegt.

Verið svo endilega mjög like-glöð þegar þið surfið um í þessu nýja umhverfi þar sem ég missti öll uppsöfnuð "like" síðustu 3-4 ára. Það er náttúrulega alvarlegt mál (HEH).

Það er ekkert annað sem breytist- ég held áfram bara að blogga um það sem mér dettur í hug (eins og ég hef alltaf gert) en þó áfram mest um förðun og snyrtidót og allt þetta sem ég er sjúk í. 
Vona að þið séuð eins hress með þetta og ég!

Hlustiði svo á smá svona næs.