2021/2022

 Það er orðið langt síðan ég hef skrifað ársuppgjör hér á bloggið. En nú finn ég einhverja ótrúlega þörf til setjast niður og reyna að koma þeirri rússíbanareið sem árið 2021 var á blað. Ég hætti að blogga á sínum tíma því ég er alltaf aðeins meira opin og persónuleg en ég vildi. Eitthvað sem ég ræð ekki við. En þegar ég les yfir gömul skrif sé ég ákveðna fegurð í einlægninni, kannski er hún kostur en ekki galli. 

Mér þótti skemmtilegt að uppgötva að síðast þegar ég skrifaði ársuppgjör (2017/2018) var ég í sömu stöðu og í upphafi þessa árs. Ég var atvinnulaus að klára fæðingarorlof og alls óviss um hvað framundan væri. Ég set hér línu úr því bloggi: 

Í kjölfarið fylgdu óvissutímar, svona tímar þar sem einu tímabili í lífinu lýkur og leit hefst að nýjum verkefnum. Svoleiðis tímabil höndla ég ekki frábærlega. Óvissa og óskipulag leysir gamlann kvíða úr læðingi og tilhugsuninn um að vita ekki hvað tæki við eftir fæðingarorlof var eitthvað sem ég átti erfitt með.

 Ég hef alltaf átt erfitt með breytingar, frá því ég var barn, en alltaf vitað að það býr meira í mér en að sækja bara í öryggi og stöðugleika. Ég hef lengi verið meðvituð um að slíkt hamlar persónulegum þroska, þ.e. að forðast áskoranir. Það sem var öðruvísi í upphafi þessa árs var að ég hef kynnst mér betur síðustu ár. Ég var einhvernveginn meira tilbúin að vera ég á mínum forsendum, sjá hvers ég væri megnug og stíga inn í óvissuna með trú á sjálfa mig, þá trú að ég gæti töluvert meira en ég hef áður talið mér trú um. Ég ákvað að hafa já-in fleiri og sjá hvert það leiddi mig. 



Elías Ari byrjaði í leikskóla og varð 1 árs í mars og við fögnuðum því í faðmi fárra (af skynsemi) á Eyrarbakka. Við reyndum eins og við gátum að eyða tíma með fjölskyldu og vinum í þessu árferði sem verið hefur undanfarið. Það tókst prýðilega og er dýrmætt. 





Þegar vora tók fór ég að vinna hjá Katrínu Björk. Það var ótrúlega góður tími þar sem ég kynntist henni og mömmu hennar og þeirra óviðjafnanlega æðruleysi og húmor. Þetta var ótrúlega góður tími þar sem ég eignaðist vinkonur fyrir lífstíð og lærði heilmikið af spjalli við þær mæðgur. Viska sem ég kem til með að búa að lengi. Fljótlega eftir að ég hafði ráðið mig hjá Katrínu bauðst mér að sækja um skólastjórastöðu Lýðskólans á Flateyri. Ótrúlegt tækifæri sem ég hafði engar almennilegar afsakanir til að stökkva ekki á. Þarna varð því ekki annað að gera en að grípa í já-ið og segja skilið við þægindaramman. Fram undir mitt sumar var ég því hálfan dag hjá Katrínu og hinn helminginn skólastjóri Lýðskólans. Það var að vissu leiti krefjandi að sinna tveimur vinnum með tvö börn en þó fannst mér greinilega ekki nóg um því við Maggi ákváðum á sama tíma að fara í heljarinnar framkvæmdir á húsinu okkar. 
Það fór svo að við þurftum að flytja út og bjuggum inni í sveit í mánuð, hjá vinum okkar á Mosvöllum, meðan þau eyddu tíma á Landspítalanum í Reykjavík með Steina litla sem kom í heiminn þremur mánuðum fyrir tímann. Það er gott að eiga góða vini. 




Á Mosvöllum varð Mía Salóme 5 ára, á fallegasta degi vorsins. Því var fagnað með hoppukastölum og pizzu í frábæru útiafmæli á túninu hjá Jóa og Gerðu. Það fór vel um okkur á Mosvöllum en framkvæmdir drógust heldur betur á langinn og svo fór að við fluttum yfir á Ísafjörð, á Svalbarð í Tungudal, sumarbústað Mjógötufjölskyldunnar hvar við eyddum næstu tveimur mánuðum. Það var óneitanlega krefjandi tími. Ég ók frá Ísafirði alla morgna, kom börnunum í leikskólann og sinnti svo tveimur vinnum þar til ég sótti þau aftur og ferjaði yfir á Ísafjörð þar sem við vorum að mestu bara þrjú á meðan Maggi fór beint úr dagvinnunni í áframhaldandi vinnu við framkvæmdir fram undir nótt. En allt hafðist þetta og upp úr miðjum júlí fluttum við heim í svo til nýtt hús sem Magga hafði tekist að taka í gegn að mestu upp á eigin spýtur með þvílíkum sóma.













Sumarið hvarf því pínulítið í að láta hlutina ganga, ná áttum í nýju starfi og að búa í ferðatösku með tvö börn í sumarfríi. Við nutum þess þó heldur betur og reyndum að hafa það eins notalegt og okkur var unnt. Við fórum aðeins úr bænum, í hina árlegu Rauðasandsútilegu með fjölskyldu og vinum. Það var sérlega kærkomið fyrir börnin að komast aðeins úr kaótíkinni sem einkenndi að mörgu leiti þetta sumar. 





Eftir sumarið vorum við orðin heldur betur spennt að komast í ró og rútínu. En september átti þó að mörgu leiti eftir að vera þungur mánuður. Það er aldeilis havarí að undirbúa eitt stykki Lýðskóla undir ríflega 30 nýja nemendur og taka svo á móti þeim. Það var fyrst og fremst ótrúlega gaman og skemmtilegt en skildi lítið rými eftir fyrir annað en vinnu. Það er eðlilegt og mér var það fullljóst þegar ég tók við starfinu. Það vildi þó ekki betur til en svo að í sömu viku og nemendur komu til Flateyrar var komið að uppgjöri í persónulega lífinu. Okkur Magga varð ljóst að sennilega væri tími okkar saman runnin sitt skeið og tími til að horfast í augu við það. Árið hafði boðið upp á allskyns leiðir til að dreifa huganum frá þessari staðreynd og því fór að frekar illa tímasettur en þó tímabær skilnaður var niðurstaðan. Það vill til að við höfum eytt hálfu lífinu hvort með öðru og við erum orðin frekar frábær í að vinna saman. Og þó þetta sé upp og niður og erfitt og sorglegt og allt í bland, þá hefur okkur tekist ótrúlega vel að gera þetta í sátt og þannig að börnunum okkar líði vel og verði fyrir sem minnstu raski. Auðvitað verður þetta áfram upp og niður en við höldum áfram að tækla þau verkefni eins og öll önnur sem við höfum tæklað saman síðustu 14 ár. Við höfum fyrst og síðast verið vinir og foreldrar og nú erum við bara vinir og foreldrar í sitthvoru húsinu. Svona ákvarðanir eru ekki teknar af léttúð eða í flýti en yfirleitt teknar til góðs. Það er ég viss um að er raunin í okkar tilfelli og framtíð okkar björt í sundur en þó eilífu samstarfi barnanna okkar vegna.



 Veturinn hefur því farið í að stýra Lýðskólanum í samstarfi við frábært fólk. Sinna þeim frábæra nemendahópi sem við fengum til okkar og þess á milli að mála, flytja og venjast nýju lífi og nýrri rútínu. Það er óneitanlega erfitt að venjast því að hafa börnin bara hjá sér viku í senn en við búum blessunarlega öll á sama blettinum svo að segja og erum dugleg að hittast þegar það þarf að fylla á knúsbankann eða þegar Míu Salóme dettur í hug að bjóða foreldrum sínum í mat hvers til annars. Er á meðan er.

Ég myndi segja að árið hafi verið gjöfult. Það hefur verið ótrúlega krefjandi með góðum skammti af hreinsandi táraflóðum en líka óteljandi hlátrasköllum með vinum, samverustundum með fjölskyldu og uppfullt af persónulegum sigrum og þroskandi ákvörðunum. Ég er kannski pínulítið að vona að árið 2022 feli í sér aðeins færri drastískar breytingar, en ég er fyrir löngu búin að læra að maður hefur litla stjórn og stundum verður maður bara að renna blint í sjóinn og vona að maður komi heill í land hinumegin. 

Það er viðeigandi að enda þessa færslu á orðum sem ég endaði færsluna 2017/2018 á:
Ég er tilbúin að leyfa 2018 að leiða mig inn í fleiri ævintýri og uppákomur en markmið ársins eru að vera meiri Katrín María. Að finna leiðir til að skilgreina sjálfa mig betur út frá mér sjálfri, frekar en hlutunum sem eru að gerast í lífi mínu. Hver er Katrín þegar hún er ekki að afreka eitthvað námstengt? Byrja í nýrri vinnu? Eignast barn? Grínast á samfélagsmiðlum? Hver er Katrín þegar hún er ótengd og ein með sjálfri sér? Ég held hún sé fín. Hlakka til að kynnast henni betur.

Ég held mér hafi tekist þetta ágætlega síðustu ár, en ég hef á tilfinningunni að ég eigi eftir að kynnast sjálfri mér betur en nokkru sinni fyrr næstu misseri. Það er tilhlökkunarefni.


Gleðilegt nýtt ár. 




2017/2018

Og hér erum við aftur. Enn eitt ársuppgjörið, þó ég hafi skrifað slíkt rétt í gær að mér finnst. 

2017 færði mér ný ævintýri og nýjar áskoranir og nýja sigra. Ég byrjaði árið á að útskrifast úr meistaranámi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Það var ótrúlegur sigur fyrir konu sem kláraði námi með lítinn grís í fæðingarorlofi og mann sem vann heimshorna á milli. Í kjölfarið fylgdu óvissutímar, svona tímar þar sem einu tímabili í lífinu lýkur og leit hefst að nýjum verkefnum. Svoleiðis tímabil höndla ég ekki frábærlega. Óvissa og óskipulag leysir gamlann kvíða úr læðingi og tilhugsuninn um að vita ekki hvað tæki við eftir fæðingarorlof var eitthvað sem ég átti erfitt með. Ég náði þó að dreifa huganum rækilega með tveimur spánarferðum í upphafi sumars með viku millibili og einu barnaafmæli heima á Íslandi milli utanlandsferða. Við fórum með góðum vinum til Barcelona yfir helgi og komum svo heim og héldum upp á 1 árs afmæli Míu Salóme, þremur dögum seinna flugum við aftur út til spánar með stórum hluta stórfjölskyldunnar og áttum þar dásamlega daga. Spánarferðirnar veittu yndislegar minningar sem er dýrmætt að eiga, en vissulega eru gleði og ævintýri ekki nóg til að drepa niður kvíða yfir komandi tímum og ég fékk því að berjast aðeins við óvissukvíðann í öðru landi líka.


En Mía. Mía Salóme er karakter sem virðist stækka með hverju augnabliki. Á þessu ári höfum við komist að því að hún elskar dýr, öll dýr, veri það skordýr, spendýr eða annars konar dýr. Hún elskar líka að taka til og hafa hlutina í röð og reglu. Hún eyðir ófáum stundum í að nöldra í foreldrum sínum yfir barmafullri ruslafötu og slæmri umgengni og svo lætur hún ömmu sína og afa heyra það ef þau skilja eftir opnar hurðar, skáphurðar, uppþvottavélar, jah eða hvað annað sem hægt er að loka. Guð forði ykkur frá því að fá hana í heimsókn ef það er mylsna á gólfinu, þá úff-ar hún og ojj-ar og röflar helst þar til einhver er mættur með sópinn. Við erum semsagt farin að efast um uppruna hennar, því við foreldrar hennar erum hvorki mestu dýravinir né snyrtipinnar landsins. En svo elskar hún að dansa, og þá verða allir í húsinu að dansa með. Þarna tengi ég pínu við hana.



Í byrjun sumars var það ljóst að ég fengi vinnu og ég notaði sumarið í að venjast þeirri tilhugsun, ásamt því að búa til fleiri góðar minningar með fólkinu í kringum mig. Við fórum suður og norður og út um allt. Mættum á þrælskemmtilegt Ögurball, fórum í útilega á Rauðasandi og nutum síðustu mánaðanna í fæðingarorlofi. Í sumarlok hófst svo nýr kafli, Mía byrjaði á leikskóla og ég fór að kenna krökkunum í 1.- 10. bekk í Grunnskóla Önundarfjarðar hin ýmsu fög. Mía er hamingjusöm á leikskólanum og ég er ánægð í vinnunni. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að móta þessa flottu krakka og síðast en ekki síst forréttindi að fá að vinna með svona dásamlegu fólki. Vá hvað það er mikilvægt og gott. Fólkið sem ég hef kynnst þar er áhugavert fólk sem gott er að vera í kringum dag hvern og mér finnst ég læra af þeim heilan helling, hvort sem það tengist vinnunni eða bara lífinu sjálfu.


Á sama tíma og ég byrjaði í nýrri vinnu ákvað ég að setja annan hluta lífs míns á bið, og það var viðvera mín á Snapchat. Sem var töluverð og þar fylgdust nokkur þúsund manns með. Það var stór ákvörðun í byrjun ágúst að hætta að eyða tímanum í taka upp snöpp og horfa á fólk á Snapchat en það færði mér fullt af frítíma sem fór í að rækta önnur og áþreifanlegri áhugamál. Ég hafði mjög gott af þessu, og svona eftir á að hyggja hefði ég engu komið í verk ef ég hefði ætlað að eyða þeim litla tíma sem ég hafði utan vinnu í þetta áhugamál. Í staðinn prjónaði ég nokkrar peysur, dúllaði við dagbókarskrif, dansaði og spjallaði heilmikið við Míu og naut þess að eiga hversdaginn án áreitis. Nú eru komnir 5 mánuðir og ég á erfitt með að hugsa mér að byrja aftur að eyða dýrmætum tíma í þetta, þó mér finnist vissulega margt dýrmætt og dásamlegt við samskipti mín við kunnugt og ókunnugt fólk víðsvegar á landinu í gegnum Snapchat.


Veturinn hefur svo liðið að mestu tilbreytingalítill hjá, fyrir utan eftirminnilegasta atvik ársins þegar vinkonur mínar Heiðdís og Lovísa gerðu sér óvænt ferð alla leið frá Akureyri til Flateyrar til að koma mér á óvart. Sú helgi rennur seint úr minni, þó það hafi tekið mig góðan sólahring að meðtaka komu þeirra og fara að njóta eftir allan sálartryllingin sem fylgdi. Vá hvað það er fallegt að eignast svona vinkonur allt í einu í gegnum internetið. Svona lifir maður stelpur, takk.


Ég hélt að árið hefði verið að mestu tíðindalítið, en mastersgráða, tvær utanlandsferðir, ný vinna og leikskólabarn er bara ágætis samansafn af upplifunum og afrekum.

Ég er tilbúin að leyfa 2018 að leiða mig inn í fleiri ævintýri og uppákomur en markmið ársins eru að vera meiri Katrín María. Að finna leiðir til að skilgreina sjálfa mig betur út frá mér sjálfri, frekar en hlutunum sem eru að gerast í lífi mínu. Hver er Katrín þegar hún er ekki að afreka eitthvað námstengt? Byrja í nýrri vinnu? Eignast barn? Grínast á samfélagsmiðlum? Hver er Katrín þegar hún er ótengd og ein með sjálfri sér? Ég held hún sé fín. Hlakka til að kynnast henni betur.

Gleðilegt nýtt ár.






Hvernig lítur andleg lægð út?

Við erum veik fyrir því að horfa og sjá. Við mælum fólk og hluti út með augunum áður en við leggjum virði í karakter þeirra og persónueinkenni. Ósjálfrátt. Við erum sköpuð með augu sem sjá hið áþreifanlega áður en við tökum eftir því óáþreifanlega. 

Ég hef áður komið stuttlega inn á andleg veikindi- svosem ekki oft. Kannski aðallega einu sinni, í þessari færslu hér, en ég er semsagt ein af þeim sem stjórnar hugsunum sínum ekki alltaf fullkomlega. Undanfarnar vikur má segja að ég hafi fundið fyrir lægð inni í mér. Hvergi nærri eins slæmri og þeirri sem ég lýsti í færslunni sem ég bendi á hér að ofan, en lægð engu að síður. 

Ég áttaði mig ekki einu sinni á því fyrr en mér var bent á það af yndælli vinkonu, að ég hef þroskast helling í viðhorfi mínu og baráttu við andleg veikindi síðan ég sagði skilið við síðustu lægð fyrir rúmum tveimur árum. Ég er hætt að horfa á og tala um mig sem samgróning veikinda minna og horfi frekar á þetta sem tímabil sem ég veit að tekur enda. Þessi veikdini eru ekki ég, þau eru bara eitthvað sem ég geng í gegnum endrum og eins. Ekki aðeins það, heldur er ég hætt að reyna að baða út öllum örmum eins og drukknandi manneskja, öskrandi og hrópandi á stöðugum en vonlausum flótta undan veikindum mínum sem verða óneitanlega partur af vegferð minni í lengri eða skemmri tíma. Ég leyfi mér að eiga þetta tímabil. Nú veit ég að þetta gengur yfir ef ég er skynsöm, ef ég hlusta á sjálfa mig, ef ætlast ekki til þess að sigrast á þessu á einum degi. 

Áður, þegar ég fann fyrir ofsakvíða, ætlaðist ég til að ég yrði strax laus við hann ef ég tæki eina hugrakka ákvörðun og framkvæmdi hana. Ef það tókst ekki gafst ég upp, fullkomlega, og ákvað að ég væri bara svona. Þýðir ekkert að berjast á móti, ég lagast ekkert, ég loka mig bara inni og gleymi því að reyna að taka þátt.

Núna veit ég að þetta er ekki ég, þetta er bara eitthvað sem ég þarf stundum að berjast við.

Það er ekki þar með sagt að þessi lægð sé eitthvað auðveld. Það koma ennþá kvíðaköst þar sem ég held raunverulega að ég sé að deyja og dagar þar sem ég missi af allskonar í lífinu af því ég treysti mér ekki til að taka þátt. En núna eru þetta bara dagar. Ekki bara ég. Ég leyfi þessu tímabili bara að vera það sem það er. Suma daga finn ég að ég hef lægri þröskuld, og þá leyfi ég kvíðanum bara að vinna, þá fær hann bara að koma í veg fyrir að ég geri hluti sem ég veit að eiga ekki að vera neitt mál. En þá geri ég líka bara ráð fyrir því að í sömu viku komi dagar þar sem kvíðinn vinnur ekki og ég fer og geri hluti sem mér finnst erfiðir eða óþægilegir en ég get það af því ég hlusta á sjálfa mig og finn ég hef burði í það þann daginn. Suma daga veit ég að ég get meira, aðra daga finn ég að ég get minna. Og ég leyfi því bara að vera svoleiðis. Ég þarf ekki að vinna sigra á hverjum degi og stundum má ég jafnvel tapa, bara á meðan ég er skynsöm og læt kvíðann ekki vinna alltaf. Sumar vikur eru fínar, aðrar eru hræðilegar. Á meðan ég rói svo þennan ólgusjó fækkar öldunum smá saman þar til þær verða lítið annað en undiralda sem ég ræð vel við. Og ég leyfi mér að bíða róleg á meðan.

En hvernig lítur lægð út? Mér finnst ég aldrei eins einmana eins og þegar ég er mjög kvíðin og þegar ég ræð ekki fullkomlega við hugsanir mínar. Mér finnst hugsanirnar fáránlegar, mér finnst fólk ekki skilja mig og stundum finnst mér ég vera svo gjörsamlega ein inni í hausnum á mér að ég gæti allt eins verið ein í heiminum. Og ég fór að reyna að hugsa um fólk í kringum mig, hver ætli sé í sömu sporum og ég? Hversu margir? Get ég rennt yfir einhverja í huganum sem "líta út fyrir" að vera að berjast við það sama? Nei. Ég sat við ströndina á Spáni, eins og klisjukennt málverk, og velti þessu fyrir mér. Auðvitað get ég það ekki. Hvernig er ég að sýna öðru fólki að ég sé að berjast við lægð? Það er ekkert augljóst við það.

Svona lítur lægð út:









Lægð lítur út eins og hversdagurinn, eins og ævintýrin, eins og góðu stundirnar og vondu stundirnar. Lægðin er með öðrum, lægðin er ein. Hún er stífmáluð, ómáluð, sköpunarglöð, framkvæmdarlaus með öllu. Lægðin er allt og hún er ekkert.

Ef þú finnur þig í sömu sporum og ég, þar sem þú leitar eftir jafningja í frekar vonlausum aðstæðum, hættu að leita og mundu; þú sérð ekki lægðina, hún bara er.
Og hún fer.

Það væri lygi að segja að ég hafi alltaf hugsað svona. En ég er að segja ykkur frá því hvernig ég hef þroskast í baráttunni og ég vil hrósa mér. Í allri hugsanavillunni og stjórnleysinu sem ríkir inn í hausnum á mér hef ég aldrei haft jafn mikið vald á óreiðunni. Þó ég hafi sjaldnast yfirhöndina.

Katrín María


4x með Holly Jolly

Færslan er unnin í samstarfi við shine.is, varan er gjöf. (Og jú, það er víst mjög retro og kúl að vera með restar af gömlu naglalakki í myndatöku). 



Ég valdi mér þessa dásamlegu Holly Jolly augnskuggapalettu frá Be Bella af shine.is um daginn af því ég (sem á ALLT og allt of mikið af því) átti í alvöru ekki svona hlýtóna 35 lita palettu en varð auðvitað að eignast hana. Og okei, ég ætla að sýna ykkur hvað maður getur fengið mikla fjölbreytni út úr einni svona palettu og hvað það er frábært, en ég VERÐ líka að bæta því við í hundrað prósent einlægni og hreinskilni að þetta er strax orðin ein af mínum uppáhalds palettum hvað varðar gæði og blöndun á augnskuggum. Það er svo óeðlilega auðvelt að blanda litina og gera þá fallega að ég verð glöð bara að hugsa um það. Mikið sem það gleður mig að geta deilt því með ykkur.
En þá að fjölbreytninni: Fjögur FAB lúkk með Holly Jolly. 

1. The Firestarter
 Þessi förðun er SVO einföld en SVO falleg. Í alvörunni, tveir augnskuggar og búið. Lappað upp á með svörtum eyeliner og smá glimmeri í innri augnkrók og þú lítur út fyrir að hafa eytt heilum vinnudegi í þetta lúkk. 

2. The Classic Colleen
Þegar maður eignast augnskuggapalettu vill maður vita að hún bjóði upp á einfaldleika í hafsjó fjölbreytileika síns. Holly Jolly er engin undantekning. Ef þú vilt taka því rólega, taktu því rólega. Svona einföld lúkk má svo taka á næsta level með rauðum varalit og semalíusteinum vilji maður vera smá extra. 

3. The Plane Purple
Einfalt getur líka verið í lit. Hér gefur að líta förðun með einfaldri ljósbrúnni skyggingu sem er svo dýpkuð með djúpfjólubláum á ytri þriðjungi augnloks og dressuð upp með kampavínsgylltum í innri augnkrók. Einfalt, fljótlegt en effektívt. 

4. The Orange Overcast

 Annað persónulegt fave er þetta matta cut crease lúkk. Það skemmtilegasta við cut crease er að byrja á basic brúnni skyggingu og velja svo bara hvaða lit sem er úr palettunni sem þú ert í stuði fyrir og smella honum á augnlokið og út í væng. Klikkar aldrei!

Ég sver ég gæti auðveldlega gert aðra svona færslu með fjórum öðrum förðunum úr þessari sömu palettu. Spurning hvort það sé mission?
Þessi paletta er allavega nýtt möst í safninu mínu- ég ELSKA þegar gjafir hitta beint í mark. Svona eins og þegar maður kúkar svo heilbrigðum kúk að maður þarf ekki að skeina sér (en gerir það samt auðvitað til öryggis). Óvænt en dásamlegt. 



Full Face með Jessup Bamboo| Myndband

Færslan er unnin í samstarfi við Shine.is, burstarnir voru gjöf.





Ég fékk þessa súpernettu bursta að gjöf frá Shine.is um daginn. Mig hafði áður lúmskt kitlað eftir þeim því þeir eru á svo ótrúlegu (bókstaflega ótrúlegu) verði og mig hefur alltaf vantað eitthvað solid sett sem ég get bent fylgjendum á þegar þeir eru í burstaleit. Ég fæ ofboðslega oft spurningar um hvaða bursta byrjendur ættu að eiga, og ég á alltaf frekar erfitt með að benda fólki beint á uppáhaldssettin mín því þau eru lúmskt dýr, sérstaklega þegar maður er að byrja og vill bara fá tilfinningu fyrir hvað mann vantar. Ég ákvað því að gera förðun frá A-Ö með þessu setti til að sýna að það er hægt að fá allt sem maður þarf í einu settu, fyrir ótrúlega næs verð. 

Þetta myndband er alveg jafn útúrsýrt og allt annað sem ég geri. En notagildi burstsanna kemur samt glögglega í ljós í gegnum vitleysuna ;) 






Neon Peach

Vörur í færslunni voru annars vegar keyptar af höfundi og hins vegar gjöf til höfundar. Gjafir eru stjörnumerktar. 




Það var sól í mér um daginn og mér hafði áskotnast flippað glimmer frá fotia.is í litnum Abba sem mér fannst helst passa við einhverja óhefðbundna og skemmtilega förðun.
Úr varð þetta Neon ferskju freakyness. En ég notaði tækifærið og kafaði ofan í eina af mínum uppáhalds palettum, fyrstu Sleek palettuna sem ég keypti mér, Oh So Special iDivine palettuna (hún fæst held ég á haustfjord.is- allavega aðrar samskonar iDivine palettur). Þar eru tveir ferskjulitir sem ég er að verða búin að klára upp til agna. Ferskjulitaðir augnskuggar klikka ALDREI á sumrin. 

Augu:
Sleek iDivine Oh So Special palette (haustfjord.is)
Morphe 35S palette (fotia.is)
L.A. Splash Art Kit Tekt liner* (haustfjord.is)
Lit glimmer í ABBA* (fotia.is)
Primalash Professionals augnhár í stíl #167* (haustfjord.is)

Stjörnu og blóma glimmerið er eitthvað ódýrt ebay naglaskraut sem ég eignaðist fyrir hálfri öld en passaði fullkomlega við þessa förðun.