Hvernig lítur andleg lægð út?

Við erum veik fyrir því að horfa og sjá. Við mælum fólk og hluti út með augunum áður en við leggjum virði í karakter þeirra og persónueinkenni. Ósjálfrátt. Við erum sköpuð með augu sem sjá hið áþreifanlega áður en við tökum eftir því óáþreifanlega. 

Ég hef áður komið stuttlega inn á andleg veikindi- svosem ekki oft. Kannski aðallega einu sinni, í þessari færslu hér, en ég er semsagt ein af þeim sem stjórnar hugsunum sínum ekki alltaf fullkomlega. Undanfarnar vikur má segja að ég hafi fundið fyrir lægð inni í mér. Hvergi nærri eins slæmri og þeirri sem ég lýsti í færslunni sem ég bendi á hér að ofan, en lægð engu að síður. 

Ég áttaði mig ekki einu sinni á því fyrr en mér var bent á það af yndælli vinkonu, að ég hef þroskast helling í viðhorfi mínu og baráttu við andleg veikindi síðan ég sagði skilið við síðustu lægð fyrir rúmum tveimur árum. Ég er hætt að horfa á og tala um mig sem samgróning veikinda minna og horfi frekar á þetta sem tímabil sem ég veit að tekur enda. Þessi veikdini eru ekki ég, þau eru bara eitthvað sem ég geng í gegnum endrum og eins. Ekki aðeins það, heldur er ég hætt að reyna að baða út öllum örmum eins og drukknandi manneskja, öskrandi og hrópandi á stöðugum en vonlausum flótta undan veikindum mínum sem verða óneitanlega partur af vegferð minni í lengri eða skemmri tíma. Ég leyfi mér að eiga þetta tímabil. Nú veit ég að þetta gengur yfir ef ég er skynsöm, ef ég hlusta á sjálfa mig, ef ætlast ekki til þess að sigrast á þessu á einum degi. 

Áður, þegar ég fann fyrir ofsakvíða, ætlaðist ég til að ég yrði strax laus við hann ef ég tæki eina hugrakka ákvörðun og framkvæmdi hana. Ef það tókst ekki gafst ég upp, fullkomlega, og ákvað að ég væri bara svona. Þýðir ekkert að berjast á móti, ég lagast ekkert, ég loka mig bara inni og gleymi því að reyna að taka þátt.

Núna veit ég að þetta er ekki ég, þetta er bara eitthvað sem ég þarf stundum að berjast við.

Það er ekki þar með sagt að þessi lægð sé eitthvað auðveld. Það koma ennþá kvíðaköst þar sem ég held raunverulega að ég sé að deyja og dagar þar sem ég missi af allskonar í lífinu af því ég treysti mér ekki til að taka þátt. En núna eru þetta bara dagar. Ekki bara ég. Ég leyfi þessu tímabili bara að vera það sem það er. Suma daga finn ég að ég hef lægri þröskuld, og þá leyfi ég kvíðanum bara að vinna, þá fær hann bara að koma í veg fyrir að ég geri hluti sem ég veit að eiga ekki að vera neitt mál. En þá geri ég líka bara ráð fyrir því að í sömu viku komi dagar þar sem kvíðinn vinnur ekki og ég fer og geri hluti sem mér finnst erfiðir eða óþægilegir en ég get það af því ég hlusta á sjálfa mig og finn ég hef burði í það þann daginn. Suma daga veit ég að ég get meira, aðra daga finn ég að ég get minna. Og ég leyfi því bara að vera svoleiðis. Ég þarf ekki að vinna sigra á hverjum degi og stundum má ég jafnvel tapa, bara á meðan ég er skynsöm og læt kvíðann ekki vinna alltaf. Sumar vikur eru fínar, aðrar eru hræðilegar. Á meðan ég rói svo þennan ólgusjó fækkar öldunum smá saman þar til þær verða lítið annað en undiralda sem ég ræð vel við. Og ég leyfi mér að bíða róleg á meðan.

En hvernig lítur lægð út? Mér finnst ég aldrei eins einmana eins og þegar ég er mjög kvíðin og þegar ég ræð ekki fullkomlega við hugsanir mínar. Mér finnst hugsanirnar fáránlegar, mér finnst fólk ekki skilja mig og stundum finnst mér ég vera svo gjörsamlega ein inni í hausnum á mér að ég gæti allt eins verið ein í heiminum. Og ég fór að reyna að hugsa um fólk í kringum mig, hver ætli sé í sömu sporum og ég? Hversu margir? Get ég rennt yfir einhverja í huganum sem "líta út fyrir" að vera að berjast við það sama? Nei. Ég sat við ströndina á Spáni, eins og klisjukennt málverk, og velti þessu fyrir mér. Auðvitað get ég það ekki. Hvernig er ég að sýna öðru fólki að ég sé að berjast við lægð? Það er ekkert augljóst við það.

Svona lítur lægð út:









Lægð lítur út eins og hversdagurinn, eins og ævintýrin, eins og góðu stundirnar og vondu stundirnar. Lægðin er með öðrum, lægðin er ein. Hún er stífmáluð, ómáluð, sköpunarglöð, framkvæmdarlaus með öllu. Lægðin er allt og hún er ekkert.

Ef þú finnur þig í sömu sporum og ég, þar sem þú leitar eftir jafningja í frekar vonlausum aðstæðum, hættu að leita og mundu; þú sérð ekki lægðina, hún bara er.
Og hún fer.

Það væri lygi að segja að ég hafi alltaf hugsað svona. En ég er að segja ykkur frá því hvernig ég hef þroskast í baráttunni og ég vil hrósa mér. Í allri hugsanavillunni og stjórnleysinu sem ríkir inn í hausnum á mér hef ég aldrei haft jafn mikið vald á óreiðunni. Þó ég hafi sjaldnast yfirhöndina.

Katrín María


4x með Holly Jolly

Færslan er unnin í samstarfi við shine.is, varan er gjöf. (Og jú, það er víst mjög retro og kúl að vera með restar af gömlu naglalakki í myndatöku). 



Ég valdi mér þessa dásamlegu Holly Jolly augnskuggapalettu frá Be Bella af shine.is um daginn af því ég (sem á ALLT og allt of mikið af því) átti í alvöru ekki svona hlýtóna 35 lita palettu en varð auðvitað að eignast hana. Og okei, ég ætla að sýna ykkur hvað maður getur fengið mikla fjölbreytni út úr einni svona palettu og hvað það er frábært, en ég VERÐ líka að bæta því við í hundrað prósent einlægni og hreinskilni að þetta er strax orðin ein af mínum uppáhalds palettum hvað varðar gæði og blöndun á augnskuggum. Það er svo óeðlilega auðvelt að blanda litina og gera þá fallega að ég verð glöð bara að hugsa um það. Mikið sem það gleður mig að geta deilt því með ykkur.
En þá að fjölbreytninni: Fjögur FAB lúkk með Holly Jolly. 

1. The Firestarter
 Þessi förðun er SVO einföld en SVO falleg. Í alvörunni, tveir augnskuggar og búið. Lappað upp á með svörtum eyeliner og smá glimmeri í innri augnkrók og þú lítur út fyrir að hafa eytt heilum vinnudegi í þetta lúkk. 

2. The Classic Colleen
Þegar maður eignast augnskuggapalettu vill maður vita að hún bjóði upp á einfaldleika í hafsjó fjölbreytileika síns. Holly Jolly er engin undantekning. Ef þú vilt taka því rólega, taktu því rólega. Svona einföld lúkk má svo taka á næsta level með rauðum varalit og semalíusteinum vilji maður vera smá extra. 

3. The Plane Purple
Einfalt getur líka verið í lit. Hér gefur að líta förðun með einfaldri ljósbrúnni skyggingu sem er svo dýpkuð með djúpfjólubláum á ytri þriðjungi augnloks og dressuð upp með kampavínsgylltum í innri augnkrók. Einfalt, fljótlegt en effektívt. 

4. The Orange Overcast

 Annað persónulegt fave er þetta matta cut crease lúkk. Það skemmtilegasta við cut crease er að byrja á basic brúnni skyggingu og velja svo bara hvaða lit sem er úr palettunni sem þú ert í stuði fyrir og smella honum á augnlokið og út í væng. Klikkar aldrei!

Ég sver ég gæti auðveldlega gert aðra svona færslu með fjórum öðrum förðunum úr þessari sömu palettu. Spurning hvort það sé mission?
Þessi paletta er allavega nýtt möst í safninu mínu- ég ELSKA þegar gjafir hitta beint í mark. Svona eins og þegar maður kúkar svo heilbrigðum kúk að maður þarf ekki að skeina sér (en gerir það samt auðvitað til öryggis). Óvænt en dásamlegt. 



Full Face með Jessup Bamboo| Myndband

Færslan er unnin í samstarfi við Shine.is, burstarnir voru gjöf.





Ég fékk þessa súpernettu bursta að gjöf frá Shine.is um daginn. Mig hafði áður lúmskt kitlað eftir þeim því þeir eru á svo ótrúlegu (bókstaflega ótrúlegu) verði og mig hefur alltaf vantað eitthvað solid sett sem ég get bent fylgjendum á þegar þeir eru í burstaleit. Ég fæ ofboðslega oft spurningar um hvaða bursta byrjendur ættu að eiga, og ég á alltaf frekar erfitt með að benda fólki beint á uppáhaldssettin mín því þau eru lúmskt dýr, sérstaklega þegar maður er að byrja og vill bara fá tilfinningu fyrir hvað mann vantar. Ég ákvað því að gera förðun frá A-Ö með þessu setti til að sýna að það er hægt að fá allt sem maður þarf í einu settu, fyrir ótrúlega næs verð. 

Þetta myndband er alveg jafn útúrsýrt og allt annað sem ég geri. En notagildi burstsanna kemur samt glögglega í ljós í gegnum vitleysuna ;) 






Neon Peach

Vörur í færslunni voru annars vegar keyptar af höfundi og hins vegar gjöf til höfundar. Gjafir eru stjörnumerktar. 




Það var sól í mér um daginn og mér hafði áskotnast flippað glimmer frá fotia.is í litnum Abba sem mér fannst helst passa við einhverja óhefðbundna og skemmtilega förðun.
Úr varð þetta Neon ferskju freakyness. En ég notaði tækifærið og kafaði ofan í eina af mínum uppáhalds palettum, fyrstu Sleek palettuna sem ég keypti mér, Oh So Special iDivine palettuna (hún fæst held ég á haustfjord.is- allavega aðrar samskonar iDivine palettur). Þar eru tveir ferskjulitir sem ég er að verða búin að klára upp til agna. Ferskjulitaðir augnskuggar klikka ALDREI á sumrin. 

Augu:
Sleek iDivine Oh So Special palette (haustfjord.is)
Morphe 35S palette (fotia.is)
L.A. Splash Art Kit Tekt liner* (haustfjord.is)
Lit glimmer í ABBA* (fotia.is)
Primalash Professionals augnhár í stíl #167* (haustfjord.is)

Stjörnu og blóma glimmerið er eitthvað ódýrt ebay naglaskraut sem ég eignaðist fyrir hálfri öld en passaði fullkomlega við þessa förðun. 



Selfish Purple| Nabla

⇉ Nokkrar af vörunum sem minnst er á í færslunni voru fengnar að gjöf, þær verða stjörnumerktar ⇇




Karin hjá Nola (nola.is) sendi mér svo fallegan pakka um daginn, þar sem leyndust meðal annars nokkrar vörur frá ítalska merkinu Nabla. Ég gerði óskalista um jólin og hafði því fengið tvo Nabla augnskugga í jólagjöf frá Magga og varð strax sjúk í þá. Þar leyndist meðal annars þessi fjólublái augnskuggi, Selfish, sem er með þeim fallegri sem ég hef notað (hann er aðalnúmerið í förðuninni hér að neðan). 
Á myndunum að ofan sjáið þið kinnalitinn Nectar* og shading púður í Gotham*- ég er búin að nota þessar vörur í nánast allar farðanir síðan ég fékk þær, skemmtilegast af öllu finnst mér "prjónamynstrið" í púðrinu. Elska svona krúttlegt touch í vöruhönnun. 






Þessi Selfish augnskuggi sko! WHAT A PRODUCT. Á vörunum er ég svo með City Chic* fljótand varalit frá Modelrock (einnig af nola.is). Ég var líka að prófa Sweed augnhárin í fyrsta skipti, þetta er stíllinn Beroe 3D*.

Ég tók svo upp myndband þegar ég var að dunda við þessa förðun, þó ég hafi aðallega verið að fíflast.





2016/2017


Eitt ár enn.
Þegar ég lít til baka á færsluna sem ég skrifaði um áramótin síðustu fæ ég hlýju í hjartað. Þar minnti ég sjálfa mig á að hvað sem er getur gerst og því ákvað ég að fara væntingalaus inn í árið 2016 og frekar leyfa mér að njóta alls þess sem myndi gerast þetta ár því lífið er óvænt og uppátækjasamt alveg upp á eigin spýtur. Það sannaðist enn og aftur. Á ný fann ég mig í aðstæðum sem hefðu verið mér stórkostlega fjarlægar árið áður- en voru samt svo eðlilegur hluti af púsluspilinu eftir á að hyggja.

39 vikur
Byrjun ársins einkenndist af bið eftir nýjum erfingja. Erfingja sem ég var frá upphafi staðráðin í að væri stúlka og hafði því um jólin 2015, í samráði við Magga (og kannski helst að hans frumkvæði), gefið henni nafn án þess að hafa fengið kynið staðfest. Sem var ágætt, því hún lét sko ekki sjá sitt allra heilagasta fyrr en á viku 37, en ekki í janúar á 20. viku eins og áætlað var. Biðin gekk heilt yfir vel þó hún hafi á stundum verið erfið og þreytandi.
Árið var ekki með öllu skuggalaust því snemma árs fylgdist ég með bestu vinkonu minni kveðja ástina sína, eiginmanninnn sinn, í hinsta sinn. Maður getur aðeins fylgst með og ímyndað sér sársaukann, en aldrei almennilega skilið hann. Það er flókið að vera að upplifa eitt af bestu árunum sínum til þessa á meðan fleiri en einn og fleiri en tveir sem manni þykir vænt um eru að upplifa sitt versta. Það er eitthvað ósanngjarnt ójafnvægi í því. Um vinkonu mína hef ég bara engin orð, mér finnst hún hafa sýnt allt að því ómennskan styrk. Hún er mér eins og oft áður, fyrirmynd í svo miklu fleiru en hún mun nokkurn tíma vita.
Í lok maí kom Mía Salóme í heiminn. Að verða móðir var ekkert eins og ég hafði ímyndað mér. Mér fannst hún skrítin og ókunnug en samtímis elskaði ég hana svo heitt að mig verkjaði í hverja frumu þegar hún átti erfitt. Hún byrjaði á því að léttast of mikið, svo ég grét í heilan dag. Hún fæddist með lausa mjöðm og þurfti að vera í spelku í 6 vikur, svo ég grét í heilan dag. Hún fékk mjólkurofnæmi, upplýsingar þess efnis komu ekki fyrr en allt of seint sem úrslitaðist í vítiskvölum fyrir elsku barnið fyrstu vikurnar, þar til ég ákvað í samráði við sjálfa mig að taka út mjólkurvörur. Fram að því eyddi ég ófáum dögum grátandi, með grátandi barn í fanginu sem fann ekki nokkra ró á daginn. Mía Salóme hefur samt alltaf sofið allar nætur án þess að rumska, 10-14 tíma. Það hefur vissulega aldrei verið grátið yfir því.
Í dag er Mía Salóme mér hvorki ókunnug né skrítin. Hún er dásamleg. Alveg extra dásamleg (algjörlega hlutlaust mat). Hún er alltaf glöð, ótrúlega áhugasöm um heiminn og sífellt hissa á því sem hann hefur að geyma, hún ýlir þegar hún er glöð (Indriði myndi aldrei meika þetta ýl, Á HANN AÐ LAGA ÞAÐ!?), hún kvartar aldrei nema hún sé orðin verulega hungruð eða vansvefta (enda kláraði hún sennilega kvótann fyrstu 4 mánuði ævinnar), grætur aldrei nema hún meiði sig mikið, er miklu hrifnari af pabba sínum en mömmu og hlær eins og grátandi gamall maður.
Að verða mamma var, þrátt fyrir allt, miklu minna mál en ég bjóst við. Við þurfum samt kannski að taka með inn í dæmið að ég kann að mikla hluti gríðarlega fyrir mér og kvíða þeim. Ímyndunarafl mitt er greinilega mun svartara en krefjandi raunveruleikinn.
Eftir yndislegan vetur í kjallaranum hjá mömmu og pabba áttuðum við okkur á því að við þyrftum að búa barninu okkar heimili og því tókum við þá trylltu ákvörðun um að kaupa okkur hús. Það gerðum við innan við viku eftir að Mía Salóme fæddist. Húsið er á Flateyri. Ég hef skrifað allt um húsið og tilfinningar mínar gagnvart því hér. En Flateyri kemur á óvart og okkur hefur aldrei liðið eins mikið “heima”. Það var töluvert stökk að fara úr 56 fermetra íbúðinni okkar á Akureyri, yfir í 200 fermetra einbýli vestur á fjörðum- en hér er alltaf pláss fyrir góða gesti og okkur þrjú og það er dýrmætt.
Sumarið var vel nýtt með Míu, það var gott veður, við sóluðum okkur, Maggi sló garðinn og dútlaði við limgerðið af mikilli innlifun við hvert tækifæri og við nutum þess að koma okkur fyrir. Þegar hausta tók var Mía orðin þriggja mánaða og mér var ekki til setunnar boðið. Ég hóf því síðustu önnina í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst með eitt (þá vansælt) ungabarn á handleggnum. Einhvern veginn komst ég í gegnum þessa önn þrátt fyrir að vera mikið ein, en Maggi hefur þurft að vinna mikið erlendis og í öðrum landshlutum í lengri og skemmri tíma. Mamma og pabbi stukku glöð inn í á örlagastundum svo ég gæti sinnt náminu af eljusemi og ég segi skilið við Háskólann á Bifröst með 8 í meðaleinkunn, sem ég held ég geti bara verið stolt af. Annar hápunktur vetrarins var svo að fá að hitta loksins allar dásamlegu konurnar (og fólkið) sem ég hef verið í sambandi við í gegnum netheima í óratíma þegar ég mætti á Urban Decay viðburðinn í Reykjavík í nóvember. Ég er þakklát fyrir þessar flottu konur sem ég blogga með hér og allar þær sem ég hef kynnst í gegnum samfélagsmiðla síðustu 2 árin eða svo. Ég óska þess að ég fái að kynnast þeim miklu betur og hitta þær miklu oftar á nýju ári.
urban-decay-36 dsc00080urban-decay-29 dsc00042

Ég kveð þetta góða ár 2016 sátt og sæl og geri enn og aftur engar væntingar til ársins 2017. Sjáum hvað það hefur upp á að bjóða.
Katrín María